(Þessi póstur er kannski óþarflega langur. Sérstaklega miðað við hvað ég ætlaði að vera stuttorður og bara rétt aðeins að segja frá stöðunni. En jæja, nenni ekki að breyta því úr því sem komið er.)Ég virtist í kvöld vera búinn að missa dampinn. Ekki nóg með það að manni hafi orðið lítið úr verki í gær þá ekki bara svaf ég ferlega yfir mig í dag heldur auk þess varð ekkert úr verki fyrr en um kvöldið.
Þetta byrjaði á því að í gær svaf ég aðeins lengur en ég ætlaði mér. Varð því lítið úr verki en mætti þó á réttum tíma í skólan. Í langa gatinu frá eitt til þrjú, í stað þess að læra eftir matinn, þá lagðist ég út af í sófan niðrí Nörd og svaf til fjögur. Á því tímabili fannst mér ég bara eiga skilið að fá þennan svefn. Ég væri búinn að vera svo duglegur og ætlaði auk þess að gera svo mikið um kvöldið. Ég var svo ekki búinn í skólanum fyrr en eftir sjö. Pantaði pitsu þegar ég kom heim, sótti hana rétt yfir átta og var búinn með hana um níu. Var svo að bauvast á netinu fram yfir tíu og fór þá fyrst að gera eitthvað. Það var nú ekkert mikið sem ég náði að gera það kvöldið. Jú, færði eldhúsborðið og nýja skápinn úr eldhúsinu.
Í morgun tókst mér næstum því að vakna á réttum tíma en datt fyrst niðrí það að "snúsa" í smá tíma og sofnaði svo endanlega þannig að ég komst ekki á lappir fyrr en klukkan að nálgast þrjú. Var svo til klukkan að verða fjögur að fá mér morgunmat og lesa daglega teiknimynda- og bloggsíðupakkann á netinu. Rauk þá af stað út í banka að borga reikninga. Þegar ég kom til baka var mér eitthvað hálf kalt og fékk þá flugu í höfuðið að það væri tilvalið að setjast niður í rólegheitunum, með heitt te í hönd og rétt aðeins líta í EVE á meðan teið væri að ylja mér. Ég ætti nú hvort sem er eftir að blogga, gæti kannski gert það á meðan. Hefð alveg nógan tíma til að gera eitthvað af viti eftir það.
Já, já. Klukkan að verða sjö var ég enn að og gerði mér þá grein fyrir að svona væri þetta ekki alveg að ganga. Var byrjaður á þessu bloggi. Hætti fljótlega í EVE og ákvað að þó að ég virtist vera búinn að missa dampinn þá þýddi ekkert að láta það á sig fá. Maður þyrfti bara að rífa sig af stað aftur. Var að vísu orðinn svangur þannig að það tafðist ögn. Eftir matinn kom ég mér þó loks í gang. Skellti mér inn í eldhús. Kláraði þar að sparsla það sem hafði gleymst í loftinu, reif niður lista sem var fyrir nýja skápnum, sparslaði í rifuna þar undan, færði ísskápinn á mitt gólfið, setti dagblöð yfir allt, málaði loftið og gekk svo frá.
Ég hafði haft vit á því að gera ráð fyrir að það gæti orðið ósvefnvænt í íbúðinni fyrir málingarlykt. Ég hafði því fengið vilyrði fyrir því að fá að gista í sófanum hjá vinkonu minni og er þar nú. Það er bæði skóli, meiri málingarvinna, tiltekt og vísindaferð sem bíður mín á morgun þannig að ég læt þetta duga að sinni.
Efnisorð: heimili, skemmtanir, skóli