26 júlí 2006

Viku bindindi ...

Jæja, fór í Tattoo & skart í gær með þeim afleiðingum að ég má ekki stunda neitt kynlíf næstu vikuna.
   Ekki að það kynlífsbindindi breyti miklu fyrir einstæðan piparsvein eins og mig. :Þ

13 júlí 2006

Er það nú líferni...

Fuss og sveiatan. Er það nú líferni á manni þessa dagana. Ekki nóg með að maður dröslast á lappir á ókristilegum tíma, löngu fyrir hádegi. Gengur um í skirtu og með bindi. Er búinn, nú þrjú kvöld í röð, að taka úr þvottavélinni sama kvöld og sett var í hana, og hengja upp. Heldur í þokkabót tók ég upp á því í gær að fara í sund án þess að láta mér nægja að slappa af í heita pottinum. Í stað synti ég fyrst 200 metra og svo 100 metra. Fór svo að lyfta lóðum og gera magaæfingar á þar til gerðum bekk. Hvar endar þetta eiginlega? Hvað næst? Fer maður að taka upp á því að fá sér strípur, fara í ljós þrisvar í viku og mæta á Astró eða Óliver með mynd af bílnum í vasanum að "hösla beibsur að þrykkja í"?
   Allavega þarf maður nú að súpa seiðið af þessum vitleysisgangi. Strengir og harðsperrur á ýmsum stöðum.

11 júlí 2006

Opinber starfsmaður

Það er kannski kominn tími á að minnast á það að maður er orðinn virðulegur, opinber starfsmaður. Mætir á hverjum morgni um átta-níu leitið, í skyrtu og bindi, sötrar kaffi og hangir á netinu eins og lög gera ráð fyrir.
   Að vísu þá er ekki gerð krafa um að maður sé jafn fínt klæddur og ég er. Það hefði dugað að vera í snyrtilegum gallabuxum og peysu, en mig bara langaði að prófa að vera í fínari kantinum. Einnig þá er maður að gera ýmislegt fleira en bara sötra kaffi og hanga á netinu (og þegar maður er á netinu þá er það að mestu leyti vinnutengt).

En allavega, þetta er sæmilega vel borgað (þó að maður hafi heyrt hærri tölur hjá útskrifuðum skólafélögum í einkageiranum), þægileg og áhugaverð innivinna, í göngufæri (rétt við tjörnina) og með hressu og skemmtilegu samstarfsfólki.

Ég er semsagt kominn með vinnu hjá Upplýsingatæknideild Menntasviðs Reykjavíkurborgar og er þar í vefforritun og -hönnun.

03 júlí 2006

Týndur kisi kemur í leitirnar.

Ég var kannski ekkert búinn að minnast á það hér en Skröggur hafði ekkert látið sjá sig síðan honum var hleypt út þann 25. maí.

En nú rétt í þessu var hann að byrtast á tröppunum, mánuði eftir að honum var hleypt út og virðist hann ekkert kannast við að hafa nokkurn tíman verið týndur. Hvar hann hefur haldið sig allan tíman fæst ekkert upp úr honum en hann virðist allavega hafa komist í æti því hann er enn í jafn góðum holdum og áður.

Þessir kettir eru furðuleg dýr.