07 september 2006

Hugsað upphátt

Ef seinasta færsla virðist torskilin þá gæti það verið vegna þess að hún var að mestu leyti ég að hugsa upphátt. Lokaniðurstaða þeirrar pælingar kemur heldur ekkert það skýrt fram, en hún var sú að ég ætla að fresta einu fagi til næsta veturs. Vera bara í þremur fögum en reyna að vera í fullri vinnu áfram.

04 september 2006

Skynsemin ræður á endanum.

Best að sætti sig bara strax við það að þó það sé kannski hægt, þá er það algjör óþarfi og býður bara hættunni heim að ætla sér að vera í fjórum fögum (80% nám) í háskólanámi og 80% til 100% vinnu með. Sérstaklega þegar maður býr einn og þarf þar af leiðir að sjá um sig sjálfur, þvo þvott, þrífa íbúðinna, kaupa inn og elda; og gæludýr að auki sem þarf að sinna. Spurning líka hvernig það færi með geðheilsuna að þurfa kannski að sleppa nánast öllu félagslífi. Maðurinn er jú félagsvera þó maður sé nú kannski í einrænari kanntinum.
Það eru fleiri atriði sem spila inní:
  • Betra að ná þremur fögum með glæsibragð heldur en rétt slefa í gegnum fjögur.
  • Það liggur ekki eins mikið á að klára námið þegar maður er kominn í sæmilega vel borgaða, áhugaverða, fulla vinnu eins og ef maður væri fátækur námsmaður á lánum.
  • Þó að hægt sé að útbúa tímaplan þar sem hlutirnir ganga upp, þá þarf ekkert mikið til að allt fari í vaskinn ef mjög þröngt er planað. Eins og littla hálsbólgan sem lagði mig í rúmmið í örfáa daga minnti mig á. Auk þess er alltaf meiri hætta á veikindum ef maður er útkeyrður.

Svo má heldur ekki gleyma fjárhagslegu hliðinni. Þó ég nái að standa við allar mínar skuldbyndingar og lifi alveg á því sem ég fengi útborgað fyrir 70% vinnu og gæti þar af leiðir alveg minnkað við mig til að ráða við álagið, þá var ég eiginlega búinn að nota tækifærið og losa mig við yfirdrætti og jafnvel þau lán sem eru ekki eins hagstæð og náms- og íbúðarlánin. Þar skiptir máli, ekki hvað ég er með í laun, né hvað ég er með útborgað, heldur hvað maður á aflögu eftir að búið er að draga frá fasta útgjaldaliði, reglubundnar afborganir, kostnað við skólagöngu, húsnæðiskostnað, rafmagn, hita, síma, mat og aðra lágmarks framfærslu. Þar er munurinn sá að samkvæmt mínum útreikningum ætti ég ca. 20 þúsund eftir mánaðarlega fyrir 75% en ca. 65 þúsund fyrir 100%. Þrefaldur munur þarna. Gæti á einu ári og þremur mánuðum losað mig við yfirdrætti og bankalán ef ég væri í fullri vinnu en væri tvö og hálft ár að því í 75% vinnu.

Sé litið á öll þessi atrið, þá held það sé alveg þess virði að vera ögn lengur með námið og ná þá bæði að gera það almennilega, komast betur fjárhagslega út úr því og halda geðhelsunni.

Í öðrum fréttum þá tóku strákarnir sig til um helgina þegar ég sá ekki til, fengu sér gmail-addressu og byrjuðu að blogga.

03 september 2006

Andvarp.

Ótrúlegt hvað maður kemur littlu í verk með malandi kisuling sofandi í fanginu. Það er samt skárra en að hafa glaðvakandi kisuling í fanginu, skyggjandi á skáinn og hlammandi sér á lyklaborðið.

Efnisorð:

Hefði nú getað sagt það sjálfur ...

01 september 2006

Góð tímasetning

Jæja, þá er skólinn byrjaður aftur. Kennsla hófst seinasta mánudag.
Það sem er öðruvísi í þetta skiptið er að maður er í vinnu núna. Eitthvað á bilinu 80 til 100 prósent vinna ásamt því að vera í fjórum fögum (sem jafngildir 80% námi). Þetta ætti samt alveg að ganga en maður verður ansi upptekinn. Eftir þessa helgi hefst skiladæma- og verkefnavinnan, og þá verður lítill tími fyrir félagslíf og enginn fyrir neitt djamm.

Þannig að nú er tilvalinn tími til að leggjast upp í rúm vegna veikinda, eða þannig sko.