16 september 2005

Af hátterni katta

Í þessum rituðu orðum sit ég og fylgist með ketti einum, nýkomnum inn úr rigningunni. Eins og katta er siður þegar þeir eru blautir, er hann að sleikja sig hátt og lágt.
Þetta væri nú ekki í frásögur færandi ef ekki kæmi til að þetta hátterni hans er ekki að hafa tilætluð áhrif. Svo vill nefnilega til að þessi tiltekni köttur, Loðmundur Skuggi að nafni, er með plastkraga einn voldugan um hálsin sem kemur í veg fyrir að tunga hans nái að snerta feldinn og er hann því eins blautur og fyrir. Ástæða fyrir veru þessa kraga er sú að í seinustu viku lenti hann í átökum við annan kött sem líklegast hefur talið Loðmund vera inn á sínu yfirráðasvæði og að þess vegna hafi þurft að reka hann á brott. Út úr þeim átökum gekk Loðmundur með sár á líkama. Til að byrja með var sárið falið undir feldinum og tók eigandi hans því ekki eftir neinu öðru en einhverju sem virtist einfaldlega vera smá sakleysislegur og klístraður hárflóki. En nokkrum dögum seinna kom í ljós eitt ljótt og gapandi bitsár á baki. Þegar svo í þokkabót fór að vella út gröftur var farið til Dagfinns að plástra saman kisugarminn. Það gekk ekki betur en að kjánaprikið var búið að rífa heftin úr sárinu strax sama kvöld og því dugðu engin önnur ráð en að setja kraga um háls hans svo sárið fengi að vera í friði.
Til að byrja með var hann frekar fýldur á svip en virðist vera búinn að jafna sig að frátöldu að hann virðist vera eitthvað lítill inn í sér og hefur því þörf fyrir að nudda sér upp við eigendan, kúra upp við hann og láta klappa sér. Sérstaklega virðist hann hafa gaman af að láta klóra sér bak við eyrun, sem er skiljanlegt þar sem hann er nú ófær um að sjá um það sjálfur.

Efnisorð:

<< Tilbaka á aðalsíðu

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þessir kettir fara nú að ná mér í skoffínshætti, svei mér þá. Þú mátt nú samt knúsa Loðmund greyið frá mér og skila hinum bestu batakveðjum enda ekkert grín að láta bíta sig svona í bakið.

16/9/05 11:10 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Tilbaka á aðalsíðu